Saga klúbbsins

Golfklúbburinn Mostri í Stykkishólmi hefur verið starfandi frá árinu 1984. Klúbburinn hefur yfir að ráða fallegum golfvelli, Víkurvelli, kenndur við býlið Vík sem var austan viðbyggðina í Stykkishólmi. Aðkoma að vellinum er sú sama og að tjaldstvæðinu og upplýsingamiðstöðinni þegar ekið er inn í bæinn.

Á annað hundrað félagar eru í golfklúbbnum Mostra og hjálpar það vafalaust klúbbnum að völlurinn er staðsettur inni í bænum. Nokkrar breytingr hafa verið gerða á Víkurvelli á síðustu árum og árið 2010 opnaði völlurinn í þeirri mynd sem upprunaleg hönnun gerði ráð fyrir. Völlurinn er par 36(72) lengd 4780 m af rauðum teigum og 5432 m af gulum teigum. Frá upphafi hefur verið markmið Mostrafélaga að Víkurvöllur verði góður og krefjandi níu holu völlur sem hentaði breiðum hópi kylfinga.

Golfklúbburinn Mostri var stofnaður 13. nóvember 1984. Nokkru áður hafði verið stofnaður golfklúbbur í Stykkishólmi en félagar í honum urðu aldrei margir og starfsemi hans lá að mestu niðri, m.a. vegna þess að erfiðlega gekk að fá land undir golfvöll.

Saga Mostra er um margt lík sögu golfklúbba sem stofnaðir voru hér á landi á þessum árum. Þeir urðu flestir til fyrir tilverknað áhugasamra einstaklinga sem þurftu að kljást við svipuð eða sömu vandamál. Ýmsar hindranir voru í vegi frumherjanna sem nauðsynlegt var að yfirvinna ætti klúbburinn að eiga sér framtíð. Þessar hindranir voru yfirleitt þær sömu: skortur á landrými undir völl, lítill og frumstæður tækjakostur, fjárskortur og að auki mættu frumherjarnir oft litlum skilningi yfirvalda og samfélagsins hvað varðar gildi golfiþróttarinnar.

Ríkharður Hrafnkelsson var einn aðalhvatamaðurin að stofnun Mostra og var formaður klúbbsins til ársins 2009 eða í tæp tuttugu og fimm ár. Sumarið 1984 var hann í forystu fyrir hópi manna sem undirbjuggu stofnun golfklúbbs. Hópurinn hóf að leita að landi undir golfvöll en á þessum tíma var ekkert hentugt land tiltækt í Stykkishólmi eða næsta nágrenni. Þeir félagar fóru víða um og skoðuðu meðal annars ýmsa álitlega kosti í Helgafellssveit. Þar voru nokkur svæði sem komu til greina en þó að sum þeirra væru föl til kaups eða leigu var slíkt meira en þessi fámenni hópur treysti sér til þess að ráða við. Þetta sumar var eigi að síður leikið golf á nokkrum túnum á Helgafelli eftir að hey hafði verið hirt af þeim. Þar var útbúinn sex holu golfvöllur sem leikið var á langt fram á haust. Um haustið var Golfklúbburinn Mostri síðan formlega stofnaður og voru í fyrstu stjórn klúbbsins auk Ríkharðs þeir Lúðvíg Halldórsson, Gunnar Hólm, Már Hinriksson og Eiríkur Helgason.

Eitt af fyrstu verkefnum hins nýstofnaða golfklúbbs var að leita að hentugu landi undir framtíðargolfvöll. Ungmennafélagið Snæfell hafði á sjötta áratug síðustu aldar gert góðan íþróttavöll rétt sunnan við bæinn. Í nágrenni vallarins voru gamlar nýræktarsléttur sem hugsanlegt var að kylfingar gætu fengið til afnota. Niðurstaðan varð sú að klúbburinn fékk gamla íþróttavöllinn án þess að þurfa að greiða fyrir hann og fékk jafnframt umrædd tún leigð en þau voru í eigu bóndans í Vík. Á þessu svæði útbjuggu þeir félagar í upphafi sex holu völl sem síðan stækkaði í níu holu golfvöll eftir að meira land fékkst leigt. Þannig var völlurinn notaður án mikilla breytinga næstu árin.

Um þetta leyti var unnið að nýju aðalskipulagi fyrir Stykkishólm og fékk klúbburinn Hannes Þorsteinsson til þess að teikna níu holu golfvöll á svæði sem afmarkaðist af sunnanverðum Vatnsási, þar sem Hótel Stykkishólmur stendur, og dalnum sem liggur að Grensási þar sem skógrækt Stykkishólms er. Árið 1987 fékk klúbburinn síðan formlega úthlutað þessu landsvæði og var í kjölfarið ráðist í að útfæra teikningar Hannesar Þorsteinssonar og fullgera þar níu holu völl. Landið var að mörgu leyti erfitt og tiltölulega dýrt að útbúa þar góðan golfvöll. Félagar í Mostra töldu hins vegar að kostirnir við staðsetninguna væru það miklir að ástæða væri til að leggja í framkvæmdir á þessum slóðum. Nálægðin við bæinn skipti kannski mestu máli en líka sú staðreynd að mun skýlla var á þessum slóðum en þar sem ef til vill hefði verið hægt að fá land í Helgafellssveit.

Landslag í Stykkishólmi er þannig að frá austri til vesturs liggja misháir klettaásar. Vallarstæðið er á og utan í tveimur þessara ása og á sléttlendi á milli þeirra. Mikið votlendi var áður fyrr á þessu sléttlendi og hafði svæðið að nokkru leyti verið ræst fram. Vinna við uppbyggingu vallarins var að mestu leyti unnin í sjálfboðavinnu af félögum í klúbbnum fyrir utan vélavinnu en hún var töluverð enda þurfti að leggja sumar brautir alveg frá grunni Unnið var að framkvæmdum við völlinn eftir því sem efni hafa leyft hverju sinni en bæði þurfti að sinna nýframkvæmdum og viðhaldi.

Fyrstu árin var verkfæraskúr eini húsakosturinn sem klúbburinn hafði yfir að ráða. Bygging golfskála var þó ekki jafn aðkallandi og ætla mætti þar sem gott samkomulag náðist við Hótel Stykkishólm um að klúbburinn fengi þar aðstöðu þegar stærri mót væru haldin á vellinum enda fyrsti teigur á þeim tíma nánast á lóð hótelsins. Félagar í Mostra vígðu síðan eigin golfskála sumarið 2001. Keypt var hús, sem hafði verið notað undir kennslustofur og staðið á lóð Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, og það flutt í Stykkishólm. Félagar í klúbbnum unnu mikla sjálfboðavinnu við að gera skálann kláran og gerðu það á þremur og hálfum mánuði. Skálinn stendur hátt yfir vellinum og er útsýni af verönd hans yfir allar brautir vallarins. Fyrsti teigur er rétt sunnan við skálann en norðan við hann er níunda flöt. Öll aðstaða félaga í Mostra breyttist verulega til batnaðar með tilkomu skálans en starfsemi klúbbsins hefur alla tíð verið öflug.

Fram til 1998 var að mestu leikið á vellinum eins og hann var lagður í landið, þ.e. tún slegin og brautir og flatir mótaðar með slætti. Nokkrir teigar höfðu þó verið byggðir upp og núverandi þriðja flöt var fyrsta flötin sem byggð var upp í kringum 1990. Árið 1998 var gerður framkvæmdasamningur við Stykkishólmsbæ á þann veg að bærinn lagði fram fimm milljónir til upbyggingar vallarins samkvæmt grunnteikningu Hannesar Þorsteinssonar. Í samningnum var einnig stefnt að því að bærinn kæmi með aukna fjámuni síðar til að klára uppbygginguna. Hafist var handa að ræsa fram og móta fyrstu og aðra brauti en þar var mjög blautt land og erfitt viðureignar. Þá var áttunda brautin mótuð að stórum hluta og flatir á fyrstu og níundu byggðar upp ásamt nokkrum teigum. Þessar framkvæmdir trufluðu ekki leik á þáverandi velli en sumarið 2002 voru nýframkvæmdirnar teknar í notkun og var vellinum þá snúið í þá legu sem hann er í dag.

Annar framkvæmdasamningur var gerður milli Mostra og Stykkishólmsbæjar árið 2006  og lagði bærinn þá til þrettán milljónir til að klára uppbygginguna. Stjórn klúbbsins hafði skipulagt framkvæmdir á þann veg að þær trufluðu leik sem minnst á vellinum og tókst það með ágætum. Í þessu ferli opnaðist sá möguleiki að fá að byggja par þrjú holu yfir Móvíkina sem er frábær viðbót við völlinn. Þar er nú afar falleg par þrjú hola. Þann 19.júní 2010 var síðan endalegur Víkurvöllur vígður. Það tók því rúman aldarfjórðung að láta drauminn rætast. Mjög gott samstarf og samvinna Mostra og bæjaryfirvalda öll árin var grunnurinn að því ljúka vallaruppbyggingunni og að koma upp golfskálanum.

Auk hefðbundins mótahalds og reksturs skála og vallar þá er öflugt félagslíf í klúbbnum. Strax á fyrstu árum klúbbsins var lögð áhersla á að fá kennara og leiðbeinendur til þess að kenna fólki réttu tökin og efnt var til námskeiða fyrir nýliða. Meðal þeirra sem sögðu Hólmurum til á fyrstu árunum voru Þorvaldur Ásgeirsson golfkennari og Hafsteinn Þorgeirsson. Þá höfðu klúbbar á Vesturlandi í nokkur ár samstarf um að ráða erlendra golfkennara sem fóru á milli klúbbanna.

Barna- og unglingastarfið hefur vaxið ár frá ári og skiptir þar miklu að undanfarin ár hefur klúbburinn notið þess að hafa í sínum röðum Einar Gunnarsson PGA kennara. Mostri hefur alla tíð átt mikil og góð samskipti við nágrannaklúbbana á Vesturlandi og eftir að klúbbum á þessu landsvæði fjölgaði hefur samstarf þeirra orðið sífellt veigameiri þáttur í starfsemi þeirra, bæði hvað varðar mótahald og gagnkvæmar heimsóknir.

Einn helsti kosturinn við Víkurvöll er nálægðin við byggðina í Stykkishólmi en völlurinn er í göngufæri frá heimilum margra félagsmanna. Völlurinn liggur að tjaldstæði bæjarins og undanfarin ár hefur klúbburinn séð um rekstur þess fyrir Stykkishólmsbæ og um nokkurra ára skeið sá Mostri einnig um rekstur á upplýsingamiðstöð ferðamanna í skálanum. Þessi verkefni hafa styrkt rekstur klúbbsins og m.a. gert honum kleift að veita góða þjónustu í skála. Með betri samgöngum, auknum straumi ferðafólks og fjölgun golfiðkenda um allt land hefur Víkuvöllur notið vinsælda sem góður og krefjandi völlur sem hentaði breiðum hópi kylfinga.